Förum aftur til ársins 1983. Það er ágústmánuður og Skagamenn eru með þriggja stiga forystu í deildinni þegar einungis tvær umferðir eru eftir af mótinu. Framundan er svo bikarúrslitaleikur við ÍBV og má segja að það sé töluverð spenna í loftinu. Bæði lið eiga sterka stuðningsmannakjarna og menn eru til alls líklegir. Halldór Karl Hermannsson og Valdimar Leó Friðriksson fóru ásamt fleirum fyrir stuðningsmannasveitinni Vönum mönnum - strákarnir á götunni. Félagsskap sem öðlaðist goðsagnakenndan sess á Akranesi í kjölfarið. Halldór, Valdimar og fleiri Vanir menn fóru yfir þennan tíma og rifjuðu upp eftirminnilegustu augnablikin.
Við skulum byrja á byrjuninni. Þeir félagarnir rifja aðeins upp andrúmsloftið á vellinum á þessum árum. Valdimar vill meina að stemmningin fyrir þeirra tíð hafi verið meira svona eins og í gamla daga þegar fólk fór í kirkju til að sýna sig og sjá aðra. Menn hafi jafnvel tekið kaffi og með því með sér á völlinn en það hafi verið lítið um hvatningahróp, þó áhorfendafjöldinn hafi oft verið 8-900 manns á hverjum leik. Halldór minnist á bikarúrslitaleikinn 1982, þegar Skaginn vann Keflavík 2-1. „Ég fór á þann leik, með Þóri Björgvinssyni og Birni Guðmundssyni og þetta var í fyrsta skipti sem ég fór á bikarúrslitaleik. Við unnum þennan leik og mér fannst bara alveg ógeðslega gaman, maður var gargandi út úr bílnum alla leið niður á höfn á leið í Akraborgina heim.
ÍA
2 : 1
Keflavík
Það var svo í rútu á leið frá Atlavík eftir Verslunarmannahelgina 1983 sem grunnur var lagður að félagsskapnum. Að sögn Halldórs myndaðist þar ákveðinn kjarni stuðningsmanna sem var staðráðinn í því að fara á bikarúrslitaleikinn gegn ÍBV það ár, ekki síst vegna þess að Stuðmenn höfðu haldið uppi stuðinu í Atlavík og þeir áttu einmitt að spila á balli á Hlöðum kvöldið fyrir bikarúrslitaleikinn. Það var því ákveðið í rútunni að fara á ballið um kvöldið og svo á úrslitaleikinn daginn eftir. Valdimar Leó rifjar upp aðdragandann að leiknum: „Kvöldið fyrir bikarúrslitaleikinn við ÍBV árið 1983, héldum við partý í íbúðinni á efstu hæð pósthússins á Akranesi. Í miðri gleðinni hringdi Haraldur Sturlaugsson formaður knattspyrnuráðs ÍA í Þorgeir Jósefsson og spurði hvort menn ætluðu ekki á leikinn. Jújú, sögðum við. Verðið þið ekki örugglega til friðs á morgun spurði Haraldur? Jújú, segir Þorgeir, það stendur ekkert annað til. Við erum að skemmta okkur en ef það er rétt að eyjamenn ætli að koma með gula og svarta kistu inn á völlinn þá lofa ég engu.“ Síðan var stefnan tekin á ball á Hlöðum. Einhverjar tafir urðu á rútunni og á meðan félagarnir biðu fyrir utan pósthúsið þá gekk maður á milli þeirra og dreifði miðum. Það varð uppi fótur og fit þegar þessir grjóthörðu stuðningsmenn ÍA áttuðu sig á hvað stóð á miðanum. Hann var hvítur með svörtum ramma utan um textann. Efst var kross og á miðanum stóð einfaldlega:
“Svo var eitt mjög sérstakt sem kom okkur til góða og menn höfðu í undirmeðvitundinni allan leikinn. Það var jarðarfarartilkynningin fræga sem stuðningsmenn ÍBV höfðu dreift daginn fyrir leik og á leikdegi. Ég held að hún hafi ómeðvitað átt smá þátt í þessum aukakrafti sem menn áttu inni undir lok leiksins. Ég fékk hana kvöldið fyrir leik. Það bankaði hjá mér dyggur stuðningsmaður, mjög alvarlegur á svipinn, og rétti mér miða með tilkynningunni í svörtum ramma og krossi. Ég varð mjög hissa þegar ég sá þetta en sá tækifæri í þessu og notaði þetta á töflufundi fyrir leik. Sýndi tilkynninguna. Það þurfti ekkert annað pepp. Strákarnir ætluðu sko alls ekki að láta jarða sig.“
Hörður Helgason, þjálfari ÍA 1983-1985
Valdimar Leó minnist þess að þeir félagarnir hafi mætt tímanlega á bikarúrslitaleikinn, rúmum tveimur klukkustundum fyrir upphafsflautið. Formaður Vanra manna átti nefnilega ákveðið sæti í stúkunni og hjátrúin sagði þeim að hann þyrfti að ná því. Þeir komu að læstu hliði á Laugardalsvellinum en tóku þá til við að æfa stuðningslögin. Baldur, vallarstjóri Laugadalsvallar, kom að hliðinu og benti Vönum mönnum réttilega á að leikurinn hæfist ekki fyrr en eftir tvo tíma. Síðan leit hann á trommuna hjá Valdimar og spurði; „Hvað ætlarðu að gera við þetta?“ Valdimar sagðist ætla að slá taktinn. „Hvað helvítis takt?“ spurði hann þá skilningsvana og með þjósti og lét sig síðan hverfa. Stuttu síðar birtist löggan og ræddi við hópinn en þegar búið var að syngja: „Baldur hleyptu okkur inn“ í 20 mínútur voru hliðin loks opnuð og liðinu hleypt inn. Einar Skúlason formaður fékk sitt sæti og 20 Vanir menn röðuðu sér í kringum hann en voru fljótlega umkringdir 300 Vestmannaeyingum. Þeim hafði eitthvað mislíkað að tuskudýr sem líktist lunda hafði verið fest uppi í þaki stúkunnar og reyndu að efna til ófriðar. Þeir róuðust þó fljótlega, enda Skagamenn orðnir um 3.000 talsins í stúkunni.
ÍA
2 : 1
ÍBV
Hörður Jóhannesson (70.mín.)
Sveinbjörn Hákonarson (118.mín.)
Bikarkeppni KSÍ
28.08 1983
Laugardalsvöllur
Það sem einkenndi vana menn og stemmninguna sem fylgdi þeim voru sönglögin í stúkunni. Það var oft sungið dátt og voru þeir hnyttnir og frumlegir í tökulögum. Snéru þeim og gerðu á sinn hátt.
“Einar leiddi gjarnan sönginn í stúkunni. Manfred Mann slagarinn Do wah diddy diddy er t.d. eftirminnilegur. Skúlason söng: „There she was just walkin‘ down the street“ og restin af hópnum brast svo í „singin‘ do wah diddy diddy dum diddy do.“ Og fleiri slagarar, t.d. gamla „Nonni, Nonni, Nonni – þú ert ungur enn – æskuárin seint gleymast ...“ Nema hvað Vanir menn breyttu alltaf textanum og beindu gjarnan að lykilmönnum andstæðinganna. Um Ögmund Kristinsson, markvörð Víkinga, t.d.: „Ömmi, Ömmi, Ömmi – þú ert þungur enn.”
Orri Harðarson, tónlistarmaður og rithöfundur
Valdimar heldur áfram: “Leikurinn var hin mesta skemmtun. Spennan í hámarki og ÍA-liðið baráttuglatt með dyggan stuðning frá söngglöðum stuðningsmönnum í stúkunni. Í leikhléi urðum við varir við öngþveiti við hlið austan megin við stúkuna. Þar voru Hildibrandar úr eyjum (stuðningslið ÍBV) mættir með kistuna. Ef lögreglan hefði ekki vísað þeim frá, hefði sennilega orðið uppþot. En leikurinn vannst og Vanir menn og aðrir stuðningsmenn sungu og trölluðu allan leikinn. Eflaust hefur þessi mikla stemmning gefið mörgum gæsahúð.”
Í Morgunblaðinu 30. ágúst var stemmningin á leiknum reifuð. ”Það var svo sannarlega kitlandi stemmning hjá þeim rúmlega 5 þúsund áhorfendum, sem horfðu á úrslitaleik ÍA og ÍBV í bikarkeppninni á sunnudaginn. Mikill undirbúningur hafði verið hjá áhangendum beggja liða. Fylking Skagamanna hafði komið sér fyrir ofarlega í miðri stúkunni á vellinum og þar var fánum veifað og hengdir höfðu verið upp stórir borðar þar sem stóð: “Áfram ÍA” og “Áfram Skagamenn”.
Í framhaldinu af þessum leik fékk félagsskapurinn byr undir báða vængi. Mikil stemmning skapaðist í kringum þá og má segja að allstaðar þar sem hópurinn kom saman hafi myndast frábær stemmning. Í stóru viðtali í Bæjarblaðinu, 29. ágúst 1984 fóru félagarnir Einar Skúlason, Þorgeir Jósefsson og Halldór Karl yfir hinn nýstofnaða félagsskap, reglur og reglugerðir og hvernig hægt var að fá inngöngu í klúbbinn. Einar rifjaði þar upp tilurð nafnsins: „Síðan datt Dóri karlinn niður á það snjallræði að útbúa ÍA merki með áletruninni Vanir menn, strákarnir í götunni. Þetta var svona orðatiltæki sem við höfðum notað og haft gaman af á ferðum okkar á leikina. Nú síðan nefndi ég það við Dóra hvort ekki væri tilvalið að stofna félag í kringum þetta merki og það fólk sem sótt hafði leikina í fyrra. Það varð svo úr að efnt var til kynningarfundar meðal þessa fólks.”
Kynningarfundurinn frægi, 23. júní 1984, var haldinn sama kvöld og undanúrslitaleikur Frakklands og Spánar í Evrópukeppninni í fótbolta fór fram. Samkomustaðurinn var að sjálfsögðu hótelið. Þorgeir ræddi m.a. um inntökuskilyrðin: „Þetta er opið félag svo framarlega sem fólk stenst ákveðin inntökuskilyrði. Sá sem æskir inngöngu þarf að senda inn svokallaða löngunarbeiðni skriflega. Hún verður að vera undirrituð af tveimur Vönum mönnum og síðan er haldinn framkvæmdarstjórnarfundur.”
Sumarið 1984 unnu Skagamenn aftur tvöfalt (deild og bikar) og hefur það ekki enn verið leikið eftir. Í bikarúrslitunum mættu Skagamenn Fram og í miklum rigningarleik höfðu þeir sigur 2-1 eftir framlengingu. Halldór Karl rifjar upp: “Þá voru Vanir menn komnir í „uniform”, allan pakkann. Á myndum sést hvernig stúkan var gul sko.” Það voru auðvitað mikil hátíðarhöld á Akranesi um kvöldið. Talið er að hátt í 1.500 manns hafi verið samankomin á Akratorgi og síðan var glaumur og glens á „telinu” um kvöldið. Í Skagablaðinu 31. ágúst var síðan sagt frá því að á leiðinni uppá skaga hafi umferðarslys í Hvalfirði valdið því að rúta Vanra manna sat föst norðanmegin við Botnsábrúna og valdið því að félagarnir misstu af hátíðarhöldunum á Akratorgi.
ÍA
2 : 1
Fram
Guðbjörn Tryggvason (88.mín.)
Árni Sveinsson (91.mín.)
Bikarkeppni KSÍ
26.08 1984
Laugardalsvöllur
Bikarinn vannst aftur 1986 og voru Vanir menn mættir sterkir í stúkuna á Laugardalsvelli en fljótlega eftir það fór ad halla undan fæti hjá Skagamönnum. Þetta fannst líka á áhorfendapöllunum og i bakþönkum Skagablaðsins, Hauk í horni, 17. september 1987 eftir Evrópuleik vid sænska liðið Kalmar FF var skrifað um stemmningsleysið á áhorfendapöllunum á Akranesvelli. Þar var m.a. haft á orði: „Lengi vel framan af heyrðist vart hósti né stuna og það var helst ef dómara leiksins varð á i messunni, að lifnaði yfir áhorfendum! Áhangendur Skagaliðsins hafa um árabil verið rómaðir fyrir öflugan stuðning en i sumar hefur brugðist svo við, að jafnvel ‚,Vanir menn" hafa þagað þunnu hljóði."
Sigþór Ómarsson (41.mín.)
Árni Sveinsson (46.mín.)