Þórður er fæddur 1930 og var lykilmaður í gullaldarliðinu gamla og einn af goðsögnum þess liðs. Þórður var einn besti leikmaður Íslands á sinni tíð og mikill markaskorari. Hann var leikmaður ÍA árunum 1946 til 1958 og lék síðan einstaka leiki á hverju ári fram til 1965. Þórður lék 138 leiki með ÍA á sínum ferli og skoraði 105 mörk. Hann lék alla leiki íslenska landsliðsins á árunum 1951-1958 alls 18 landsleiki og skoraði þeim leikjum 9 mörk. Þórður var Íslandsmeistari með ÍA 1951,1953,1954,1957,1958 og 1960.
Eiginkona Þórðar er Ester Teitsdóttir. Bróðir Esterar var Sveinn Teitsson einn besti leikmaður ÍA og landsliðsins á sínum ferli. Sonur hans er Árni Sveinsson leikmaður ÍA og landsliðsins á sínum tíma. Systir Esterar er Margrét Teitsdóttir móðir Sigursteins Gíslasonar leikmanns ÍA og KR og landsliðsins.
Fjögur af börnum Þórðar hafa tengst knattspyrnusögu Akraness beint. Elsti sonur Þórðar er nafni hans Þórður. Hann á synina Þórð Þórðarson fyrrverandi markvörð ÍA og Stefán Þór Þórðarson fyrrverandi sóknarmann ÍA sem báðir voru í fremstu röð á sínum tíma. Tveir synir hans Teitur og Ólafur fetuðu í fótspor föður síns í knattspyrnunni og komust í fremstu röð á sínum tíma. Lilja Þórðardóttir dóttir Þórðar er mamma Unnars Valgeirssonar og amma Lilju Unnarsdóttur sem er bráðefnileg knattspyrnukona sem spilar með Selfoss.
Teitur Þórðarson er fæddur 1952 og lék með ÍA á árunum 1969 til 1976. Hann var einn þekktasti leikmaður landsins á sínum tíma og eftir veru sína á Akranesi gerðist hann atvinnumaður erlendis fyrst í Svíþjóð og síðar í Frakklandi og Sviss um árabil við góðan orðstír. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk gerðist hann þjálfari og hefur unnið víða á þeim vettvangi. Teitur lék 187 leiki með ÍA og skoraði 95 mörk í þeim leikjum. Hann lék í landsliðinu á árunum 1972-1985 alls 41 leik og skoraði 9 mörk. Teitur varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með ÍA 1970,1974 og 1975.
Ólafur Þórðarson er fæddur 1965 og lék með ÍA á árunum 1982-1997 og aftur sem spilandi þjálfari 2000-2003. Hann er einn þekktasti knattspyrnumaður landsins og lykilmaður og fyrirliði í sigursælu ÍA liði á árunum 1993-1996. Hann lék í Noregi 1989-1992. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk gerðist hann þjálfari, fyrst hjá Fylkir og síðan hjá ÍA 2000-2006 og eftir það hjá Víking og Fram. Ólafur lék 377 leiki með ÍA og skoraði 59 mörk. Hann var landsliðsmaður 1985-1997 og lék 72 landsleiki og skoraði í þeim 5 mörk. Auk þess lék hann 17 leiki með yngri landsliðunum. Ólafur var Íslandsmeistari 1983,1984,1993,1994,1995,1996 og 2001 sem þjálfari ÍA. Bikarmeistari 1983,1984, 1993, 1996, og sem þjálfari 2000 og 2003. Deildarbikarmeistari 1996 og sem þjálfari 2003
Barnabörn Þórðar eru Þórður Þórðarson fæddur 1972 og lék með ÍA 1991-1998 og aftur 2003-2005. Hann var aðalmarkvörður ÍA frá 1994. Auk þess að leika með ÍA lék hann með Val og KA og síðan í sænska liðinu IFK Norrköping um skeið. Eftir að ferlinum lauk tók hann við störfum þjálfara á Akranesi fyrst hafði hann yfirumsjón yfir unglingastarfi ÍA og síðan ÍA liðinu 2009-2013. Hann er nú þjálfari unglingalandsliða kvenna hjá KSÍ. Þórður lék 275 leiki fyrir ÍA. Hann lék einn landsleik 1996 gegn Kýpur en sá leikur var leikinn á Akranesi. Hann var Íslandsmeistari 1992,1993,1994,1995 og 1996, bikarmeistari 1993,1996,2003 og deildarbikarmeistari 2003.
Stefán Þór Þórðarson er fæddur 1975 og lék með ÍA 1993-1996 og með hléum 1999, 2003-2004 og 2008 og síðast 2010-2011. Hann var skæður sóknarmaður. Stefán lék erlendis á milli þess að leika með ÍA m.a. í Svíþjóð, Noregi, Englandi, Sviss og Þýskalandi. Stefán lék 213 leiki með ÍA og skoraði 78 mörk. Hann lék 6 A landsleiki á árunum 1998-2008 og skoraði í þeim 1 mark. Auk þess lék hann 17 unglingalandsleiki og skoraði 5 mörk. Stefán varð Íslandsmeistari 1994,1995,1996 og bikarmeistari 2003 og deildarbikarmeistari sama ár.
Unnar Valgeirsson hinn kraft- og skapmikli kantmaður var leikmaður ÍA á árunum 1996 til 2005. Unnar lék 150 leiki fyrir ÍA og var Íslandsmeistari 2001 og bikarmeistari 2003. Meiðsli plöguðu hann allan hans feril.
Þeir Þórður og Stefán barnabörn Þórðar eiga báðir syni sem hafa skapað sér nafn i íslenskri knattspyrnu. Synir Þórðar markvarðar eru þeir Þórður Þorsteinn Þórðarson sem er fæddur 1995 og lék með ÍA á árunum 2013 til 2021. Hann er núna að geta sér gott orð sem knattspyrnudómari og Stefán Teitur Þórðarson fæddur 1998. Stefán lék með ÍA frá árunum 2016 til 2020. Leikur nú sem atvinnumaður í Danmörku með Silkiborg og er viðloðandi A landsliðið.
Oliver Stefánsson er sonur Stefáns. Móðir Olivers og eiginkona Stefáns er Magnea Guðlaugsdóttir sem var sigursæll leikmaður ÍA á sínum tíma og landsliðsmaður. Oliver er fæddur 2002 og lék með ÍA upp allra yngri flokkana og lék einn leik með ÍA í 1. deildinni 2018 áður en hann hélt út til Svíþjóðar til IFK Norrköping þar sem hann lenti m.a. í erfiðum meiðslum og veikindum. Hann kom heim og spilaði með í ÍA sumarið 2022 en rifti síðan samningnum við IFK Norköpping og gekk til liðs við Breiðablik. Lilja Unnarsdóttir er bráðefnileg knattspyrnukona sem spilar á Selfossi. Hún hefur verið að gera góða hluti í stúlknalandsliði Íslands og þykir afar efnileg með baneitraða vinstri löpp.